Eiður og Sigurvin hafa vakið athygli fyrir að klæðast gráum íþróttagöllum, eða hreinlega kósýgöllum, á hliðarlínunni á leikjum FH í sumar.
Nú þegar einn stærsti leikur sumarsins er framundan, þar sem ræðst hvort FH kemst í Evrópukeppni næsta sumar með tilheyrandi fjárhagslegum ávinningi, stendur ekki til að þjálfararnir breyti út af vananum og fari í jakkafötin.
Í skemmtilegri auglýsingu FH-inga vegna leiksins, sem sjá má hér að neðan, ýta þeir Eiður og Sigurvin að minnsta kosti skyrtunum til hliðar í skápnum og draga fram gallana, sýnilega ánægðir með sitt val. Auglýsinguna má sjá hér að neðan.
Þessir gallar eru einum leik frá Evrópu!
— FHingar (@fhingar) September 23, 2022
Miðasala í fullum gangi.
https://t.co/OmRXgjUNt6 pic.twitter.com/wgoYZGKhDw
FH og Víkingur mætast í bikarúrslitaleiknum laugardaginn 1. október og er miðasala á tix.is.
Svo gæti farið að FH verði bikarmeistari og hljóti Evrópusæti en falli samt niður í 1. deild. Liðið er í fallsæti fyrir fimm leikja törnina í október þar sem úrslitin ráðast. Víkingar eiga aftur á móti enn möguleika á að vinna tvöfalt eins og í fyrra en þá þarf mikið að breytast í Bestu deildinni.
Bikarúrslitaleikurinn skiptir ekki aðeins miklu máli fyri FH og Víking heldur gæti hann einnig haft mikið að segja fyrir önnur lið í Bestu deildinni, sérstaklega KA. Ef FH vinnur bikarúrslitaleikinn er ljóst að aðeins tvö efstu lið Bestu deildarinnar munu fá sæti í Evrópukeppni, en vinni Víkingar og endi í öðru af tveimur efstu sætum deildarinnar mun liðið í 3. sæti einnig komast í Evrópukeppni.