Jóhann tekur við liðinu af þeim Jón Stefáni Jónssyni og Perry McLachlan sem stýrðu liðinu á þessu tímabili. Jóhann þekkir vel til á Akureyri en hann var þjálfari Þórs/KA á árunum 2012-2016 en liðið endaði þá aldrei neðar en í 4. sæti deildarinnar undir hans stjórn. Þór/KA lauk ný afstöðnu tímabili í Bestu-deild kvenna í 7. sæti.
Síðustu sex ár hefur Jóhann stýrt bæði karla- og kvennaliði Völsungs en það er mikill tilhlökkun hjá Þór/KA að fá Jóhann aftur til starfa á Akureyri.
„Við í stjórninni erum rosalega ánægð með þessa ráðningu. Jói er með mikla reynslu af þjálfun og gerði Þór/KA meðal annars að Íslandsmeisturum 2012, á sínu fyrsta tímabili með liðið. Hann hefur mikinn metnað fyrir Þór/KA og veit hvað þarf til að ná árangri. Við teljum að hann sé rétti þjálfarinn fyrir okkur og hann mun klárlega bæta okkur sem lið og sem einstaklinga,“ segir í tilkynningu Þór/KA.
Ásamt Jóhanni voru þau Ágústa Kristinsdóttir og Hannes Bjarni Hannesson einnig ráðin til starfa hjá Þór/KA. Ágústa sem yfirþjálfari yngri flokka og Hannes sem sjúkra- og styrktarþjálfari.