Konan sem var 23 ára á þeim tíma, var í eftirpartí heima hjá Mendy en Mattuire réðst á hana og braut á henni kynferðislega þegar þau tvö ætluðu að sækja meira áfengi í næstu kjörbúð. Skömmu síðar braut Mendy einnig á henni kynferðislega.
Í dómsalnum voru lesin upp textaskilaboð frá konunni sem hún sendi vini sínum: „Ha ha ha ég var að sofa hjá Jack Grealish.“
Lögmaður Mattuire, Lisa Wilding, las skilaboðin upp fyrir kviðdóm en konan játaði að hafa sent skilaboðin. Wilding fullyrðir að konan hafi verið að monta sig af því að vera með leikmönnunum í umtöluðu partí.
„Ég man ekki í hvaða herbergi það skeði, ég man voða lítið frá þessu kvöldi en ég veit að eitthvað skeði,“ sagði konan. Í yfirheyrslu lögreglu sagðist hún vera 80% viss um að þau Grealish hafi stundað kynlíf en hún sofnaði í viðveru Grealish en vaknaði síðar nakin.
Í öðrum skilaboðum konunnar skrifaði hún til vinar síns að Grealish væri góður strákur en hún væri sorgmædd yfir því að hann ætti kærustu. Grealish er ekki ákærður fyrir kynferðisafbrot.
Í sama eftirpartí heima hjá Mendy var önnur kona, 17 ára gömul, sem fullyrðir að henni hafi tvisvar sinnum verið nauðgað af Mendy. Í skrifstofu hans og bikarherbergi.
Bæði Mendy og Mattuire neita öllum ásökunum en vitnaleiðslur fyrir dómstólum í máli þeirra stendur nú yfir í Manchester. Mendy hefur verið sýknaður af einni sjö nauðgunar ákærum í málinu.