Körfubolti

Elta upp fjörið og tilþrifin með því að skipta á milli leikja í NBA 360 í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyrie Irving og Kevin Durant verða í sviðsljósinu með Brooklyn Nets í kvöld en margir eru spenntir að sjá hvað þeir geta gert saman með liðinu sem þeir ætluðu hvorugur að spila með.
Kyrie Irving og Kevin Durant verða í sviðsljósinu með Brooklyn Nets í kvöld en margir eru spenntir að sjá hvað þeir geta gert saman með liðinu sem þeir ætluðu hvorugur að spila með. Getty/Jacob Kupferman

NBA-deildin í körfubolta býður aftur upp á NBA 360 í ár og fyrsta útsendingin er í kvöld. Í rúma fimm klukkutíma verður flakkað á milli þeirra leikja sem eru í gangi í deildinni í kvöld.

Stöð 2 Sport 2 er áfram með NBA deildina í vetur og verður með fyrsta NBA 360 kvöldið í beinni hjá sér.

Sigurður Orri Kristjánsson lýsir veislunni og er spenntur fyrir kvöldinu.

„NBA 360 er prógramm þar sem er sýnt frá mörgum NBA leikjum sama kvöldið. Þar er skipt á milli leikja með það fyrir augunum að vera með það sem er mest spennandi í mynd hverju sinni,“ segir Sigurður Orri Kristjánsson.

„Þetta er fyrirkomulag sem NFL aðdáendur þekkja sem "redzone". Þetta var gert nokkrum sinnum hjá Stöð 2 Sport í fyrra og mæltist vel fyrir,“ segir Sigurður Orri en það hlýtur að reyna á að lýsa svo mörgum leikjum í einu.

„Ég gerði þetta tvisvar í fyrra og þetta var fáranlega skemmtilegt. Maður sér lið sem maður gefur sér ekki oft tíma til að horfa á,“ segir Sigurður Orri en hvað eru mest spennandi leikir kvöldsins.

Hann nefnir sérstaklega fjóra leiki sem má sjá hér fyrir neðan. NBA 360 hefst klukkan 23.00 í kvöld á Stöð 2 Sport 2.

Orlando Magic - Atlanta Hawks

„Paolo Banchero var valinn fyrstur í nýliðavalinu og mætir Atlanta eftir að hafa átt frábæran fyrsta leik á NBA ferlinum. Atlanta bættu við sig Dejounte Murray frá San Antonio Spurs og er mikil spenna fyrir samvinnu hans og Trae Young,“ segir Sigurður Orri.

Toronto Raptors - Brooklyn Nets

„Það var eilíft vesen á Nets í fyrra og Durant vildi að Steve Nash þjálfari yrði rekinn í sumar og vildi fara sjálfur. Toronto líta hins vegar vel og nýliði ársins í fyrra Scottie Barnes kemur vel undan sumri,“ segir Sigurður.

Boston Celtics - Miami Heat

„Þessi lið mættust í úrslitum austurdeildarinnar í fyrra,“ segir Sigurður.

Utah Jazz - Minnesota Timberwolves

„Rudy Gobert mætir sínum gömlu félögum,“ segir Sigurður.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×