Körfubolti

Síðastur til að byrja NBA tímabil eins og Luka í ár hét Michael Jordan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Doncic fagnar körfu fyrir Dallas Mavericks liðið.
Luka Doncic fagnar körfu fyrir Dallas Mavericks liðið. AP/Brandon Wade

Slóvenski körfuboltamaðurinn Luka Doncic hefur verið illviðráðanlegur í fyrstu leikjum tímabilsins og enn eitt dæmið um það var í nótt.

Doncic var með 44 stig í 114-105 sigri Dallas Mavericks á Orlando Magic en Doncic skoraði þrjátíu af stigum sínum í fyrri hálfleiknum.

Doncic hefur nú skorað þrjátíu stig eða meira í fyrstu sex leikjum tímabilsins en hann er með 36,7 stig að meðaltali í þessum leikjum. Doncic er líka með 8,7 stoðsendingar að meðaltali.

Það þarf að fara alla leið aftur til ársins 1986 til að finna leikmann byrja NBA-tímabil með sex 30+ stiga leikjum og þar var 23 ára gamall Michael Jordan með Chicago Bulls.

Jordan skoraði þá 50, 41, 34, 33, 39 og 34 stig í fyrstu sex leikjum sínum en var síðan bara með 28 stig í sjöunda leiknum. Jordan var með 38,5 stig og 3,5 stoðsendingar að meðaltali í þessum sex leikjum.

Doncic hefur skorað 35, 32, 37, 41, 31 og 44 í sínum sex leikjum til þessa á tímabilinu.

Svo skemmtilega vill til að Doncic er nánast jafngamall og Jordan var á 1986-87 tímabilinu.

Doncic var 23 ára og 244 daga gamall í sjötta leiknum í nótt en í sjötta leik sínum fyrir næstum því fjörutíu árum var Jordan 23 ára og 267 daga gamall.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×