Fjölgun ferðamanna á undanförnum rúmum áratug hefur kallað á fjölgun hótela, veitingastaða, leiguíbúða og annarra þjónustustarfsemi með fjölgun starfa til að mynda í gamla Vesturbænum. Þetta hefur aukið ásóknina í bílastæði þannig að íbúar í nálægum götum geta átt erfitt með að leggja bílum sínum.

Eftir þrýsting frá íbúum var tekin upp gjaldskylda á Nýlendugötu og Mýrargötu í gamla Vesturbænum ásamt nálægum smágötum fyrir örfáum árum sem létti á ásókninni.
Hins vegar voru Vesturgata og göturnar þar fyrir ofan upp að Landakoti áfram gjaldfrjálsar vestan Ægisgötu. Þessar götur hafa all lengi verið með gjaldskyldu austan megin Ægisgötu en allir hafa getað lagt gjaldfrjálst í götunum vestan megin. Þetta breytist brátt, að hluta að minnsta kosti.

Því innan skamms mun gjaldskyldan verða framlengd á Vesturgötu, Ránargötu, Bárugötu og Öldugötu vestur að Stýrimannastíg sem einnig verður gjaldskyldur ásamt Hrannarstíg.

Bjarni R. Ingvarsson starfandi deildarstjóri samgangna hjá Reykjavíkurborg segir þetta ekki hvað síst gert vegna þrýstings frá íbúum.
Hvers vegna var gjaldskyldan ekki tekin upp alla leið út göturnar?
„Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Þar ber helst að nefna að á þeim tíma sem bílastæðasjóður er með vöktun á stæðum er notkunin ekki slík að hún réttlæti eða kalli á gjaldskyldu á bílastæðum,“ segir Bjarni.

Það á líka að stækka gjaldskyld svæði annars staðar í Vesturbænum. Hávalla-, Blómvalla-, Ásvalla-, Sólvalla- og Brávallagötur vestan Brávallagötu verða allar gjaldskyldar vestan Blómvallagötu að Hofsvallagötu.
Við Tjörnina verður gjaldskylda við Tjarnargötu framlengd frá Ráðherrabústað út að Hringbraut og Bjarkargata verður öll gjaldskyld.

Þá verður gjaldskylda einnig víkkuð út í Þingholtunum og tekin upp á Baldursgötu, Bragagötu, Freyjugötu, Þórsgötu og Lokastíg sem afmarkast af Skólavörðustíg, Njarðargötu, Nönnugötu og Baldursgötu.
Íbúar við allar þessar götur geta hins vegar fengið íbúakort. Þeir greiða þá 2.500 krónur á mánuði fyrir að leggja nærri heimilum sínum.

Gæti farið svo bæði í Gamla Vesturbænum, Þingholtunum og víðar að gjaldsvæðin stækki?
„Algerlega. Þróunin hefur alltaf verið þannig þegar við setjum gjaldskyldu á ákveðnum svæðum fara nágrannar oft að kalla eftir því líka. Bara vegna þess að nýting stæðanna verður miklu betri og fólk á auðveldara með að finna stæði,“segir Bjarni R. Ingvarsson. Breytingarnar taki formlega gildi strax eftir áramótin.