Ísland og Georgía eiga í harðri baráttu um að komast í lokakeppni HM, í fyrsta sinn, en liðin sitja í 3. og 4. sæti L-riðils eftir sex umferðir af tíu. Þrjú efstu liðin komast á HM.
Stór hluti georgíska landsliðshópsins átti að ferðast frá Tbilisi til Íslands í gær en vegna vandamáls sem kom upp í flugvél Lufthansa, á leið hennar frá München að sækja mannskapinn til Tbilisi, gekk það ekki upp.
Hópurinn komst reyndar á endanum til München í gær en varði nóttinni í Þýskalandi þar sem að ekki tókst að ná fluginu áfram til Keflavíkur.
Í staðinn flaug hópurinn frá Frankfurt til Keflavíkur í dag og lenti þar fyrir skömmu.
Í Reykjavík hittir hópurinn gríska þjálfarann Ilias Zuros sem og nokkra lykilleikmenn sem flugu beint frá því landi sem þeir spiluðu í. Það eru Giorgi Shermadini, Thad McFadden, Alexandre Pevadze og Giorgi Korsantia.
Fyrirliðinn Tornike Shengelia, sem leikur með Virtus Bologna á Ítalíu, kemur seinna en aðrir til Íslands, eða rétt um sólarhring fyrir leikinn, því hann þarf fyrst að spila leik við Olimpia Milano í Euroleague annað kvöld.

Í georgíska hópnum sem flaug frá Tbilisi eru eftirtaldir leikmenn: Giorgi Tsintsadze, Rati Andronikashvili, Givi Bakradze, Duda Sanadze, Kakhaber Jintcharadze, Merab Bokolishvili, Mikheil Berishvili, Ilia Londaridze og Beka Bekauri.
NBA-leikmennirnir Goga Bitadze og Sandro Mamukelashvili eru ekki með liðinu.
Leikur Íslands við Georgíu er í Laugardalshöll á föstudag klukkan 19:30. Miðasala á leikinn er í appinu Stubbur.