Fótbolti

„Garnacho hefur ótrúlega hæfileika“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alejandro Garnacho tryggði Manchester United dramatískan sigur gegn Fulham í dag.
Alejandro Garnacho tryggði Manchester United dramatískan sigur gegn Fulham í dag. Justin Setterfield/Getty Images

Christian Eriksen, leikmaður Manchester United, skoraði fyrra mark liðsins er United vann dramatískan 1-2 sigur gegn Fulham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Hann lagði einnig upp sigurmarkið fyrir ungstirnið Alejandro Garnacho í uppbótartíma.

„Þetta var mikill baráttuleikur en að skora á seinustu mínútu leiksins er alltaf góð tilfinning,“ sagði Daninn að leikslokum.

„Við hefðum líklega átt að vera búnir að skora nokkur mörk áður frekar en að skilja það eftir þangað til á seinustu stundu. Þetta sýnir samt að við erum með gott hugarfar og að við höldum alltaf áfram.“

Eriksen kom United yfir gegn Fulham strax á 14. mínútu leiksins, en það var hans fyrsta mark fyrir félagið.

„Þetta er búin að vera löng fæðing. Ég held að ég hafi skuldað þetta mark svo ég er ánægður að ná að skora í kvöld. Ég hefði samt átt að skora tvö,“ sagði Eriksen léttur.

„En leikurinn var að opnast báðum megin á vellinum undir lokin. Leikmenn voru orðnir þreyttir og ef þú tapaðir boltanum myndaðist mikið svæði til að hlaupa í. Við vorum ekki með mikið á tankinum á lokamínútunum, en það var nóg.“

Þá var Daninn einnig spurður út í hetju leiksins, ungstirnið Alejandro Garnacho.

„Við höfum séð það á æfingum að Garnacho hefur ótrúlega hæfileika. Hann er að læra á leikinn, hvenær á að rekja boltann og hvenær á að gefa hann. En hann hefur ótrúlega hæfileika,“ sagði Eriksen að lokum.


Tengdar fréttir

Garnacho hetja United í dramatískum sigri

Alejandro Garnacho reyndist hetja Manchester Untied er hann tryggði liðinu 1-2 sigur á ögurstundu þegar liðið heimsótti Fulham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×