Körfubolti

„Auðvitað er þetta ótrúlega erfitt andlega“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Helena Sverrisdóttir stefnir aftur á völlinn áður en árið er úti.
Helena Sverrisdóttir stefnir aftur á völlinn áður en árið er úti. Mynd/Vísir

Körfuboltakonan Helena Sverrisdóttir úr Haukum vonast til að komast aftur á völlinn fyrir áramót en hún jafnar sig eftir liðþófaaðgerð. Hún segir taka á að vera utan vallar en hlakkar mikið til að komast aftur á parketið.

Helena hefur þurft að sætta sig við að vera á hliðarlínunni það sem af er vetri en hún neyddist í aðra liðþófaaðgerðina á innan við tólf mánaða tímabili í haust. Hún stefnir á endurkomu fyrir áramót.

„[Staðan] er bara ágæt held ég. Ég fór í aðgerð í lok september til að laga rifu í liðþófanum - aftur - sem að ég gerði líka í nóvember í fyrra. Ég held að þetta sé allt að koma, þetta er þolinmæðisvinna sérstaklega af því að þetta var önnur aðgerðin á stuttum tíma,“

„Eins leiðinlegt og það er þarf maður bara að vera þolinmóður, hlusta á sjúkraþjálfarann og lækninn og leyfa þeim svolítið að ráða ferðinni. Ég verð vonandi búin að spila einn leik allavega, á þessu ári,“

Klippa: Helena Sverris um meiðslin

Einblínir á tilhlökkunina fram yfir erfiðleikana

Líkt og fram kemur eru þetta önnur meiðsli Helenu á skömmum tíma en þá hefur hún einnig þurft að vera á hliðarlínunni vegna meðgöngu. En hvernig tekst hún á við leiðindin sem fylgja því að komast ekki á völlinn?

„Ég er náttúrulega líka búinn að ganga í gegnum tvær meðgöngur þar sem ég hef þurft að horfa á liðið mitt spila, þannig að maður er kannski orðinn aðeins sjóaðri í þessu núna. Við búum sem betur fer vel að því á Ásvöllum að það er nóg pláss í kringum völlinn þannig að maður reynir bara að nýta tímann meðan þær æfa í sína eigin endurhæfingu,“

„Auðvitað er þetta ótrúlega erfitt andlega en maður hlakkar bara svo mikið til að komast aftur á völlinn að maður horfir bara svolítið á það og einblínir á það,“ segir Helena.

Þrátt fyrir fjarveru Helenu í vetur, sem og Lovísu Henningsdóttur, sem ekkert hefur heldur spilað, er Haukaliðið samt sem áður í 2. sæti Subway-deildarinnar með 16 stig, fjórum á eftir toppliði Keflavíkur sem er með fullt hús stiga.

Viðtalið við Helenu má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×