Fótbolti

Neymar gæti lagt lands­liðs­skóna á hilluna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Neymar bugaðist einfaldlega eftir að Brasilía féll úr leik.
Neymar bugaðist einfaldlega eftir að Brasilía féll úr leik. Francois Nel/Getty Images)

Eftir súrt tap gegn Króatíu í vítaspyrnukeppni í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í fótbolta sagði brasilíska stórstjarnan Neymar að landsliðsskórnir gætu verið á leið upp í hillu.

Neymar spilaði allan leikinn er Brasilía datt út í vítaspyrnukeppni gegn Króatíu. Hann tók ekki víti en talið er að hann hafi átt að vera fimmta vítaskytta Brasilíu í leiknum. Neymar meiddist illa á ökkla í fyrsta leik mótsins en sneri aftur í 16-liða úrslitum.

Virtist um tíma sem hann hefði skotið Brasilíu áfram þegar hann skoraði í framlengingunni. Allt kom fyrir ekki og Brasilía er á leið heim.

Eftir leik ræddi hinn þrítugi Neymar við fjölmiðla og sagðist ekki ætla að loka neinum dyrum en það væri ekki 100 prósent öruggt að hann myndi spila aftur fyrir landsliðið.

„Ég þarf að taka mér minn tíma í að hugsa um þetta, hugsa um hvað er best fyrir mig og best fyrir landsliðið. Þetta er ömurleg tilfinning. Held hún sé verri nú en eftir síðustu heimsmeistarakeppni.“

„Er í raun ómögulegt að finna réttu orðin til að lýsa því hvernig mér líður á þessari stundu. Við gáfum allt í þetta og ég er stoltur af liðsfélögum mínum,“ sagði Neymar að endingu.


Tengdar fréttir

Króatar fyrstir í undanúrslit eftir dramatík og vítaspyrnukeppni

Króatía varð í dag fyrsta þjóðin til að tryggja sér sæti í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í Katar er liðið hafði betur gegn Brasilíu í vítapyrnukeppni, 4-3. Markalaust var að venjulegum leiktíma loknum og liðin skoruðu sitt markið hvort í framlengingunni og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×