Formaður Blaðamannafélagsins segir erfitt að réttlæta slíka styrki sem veittir séu með jafn duttlungafullum hætti og kallar eftir gegnsærra ferli.
Formaður fjárlaganefndar, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, segir í viðtali við Fréttablaðið í dag að meirihluti nefndarinnar telji að styðja eigi betur við einkafyrirtæki á landsbyggðinni sem framleiða efni fyrir sjónvarp. Þess vegna séu þeim ætlaðar 100 milljónir króna.
Aðspurð gat Bjarkey nefnt tvo fjölmiðla sem uppfylla þessi skilyrði, það er, að vera á landsbyggðinni og framleiða sjónvarpsefni. Það eru N4 á Akureyri og Víkurfréttir á Suðurnesjum.
Framkvæmdastjóri N4 sendi nýverið erindi á nefndina þar sem óskað var eftir hundrað milljón króna styrk.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir er formaður Blaðamannafélag Íslands. Hún gagnrýnir þetta fyrirkomulag harðlega.
„Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að svona myndi ekki gerast í nokkru öðru lýðræðisríki. Að fjárlaganefnd þingsins handvelji einn fjölmiðil til að veita 100 milljóna styrk,“ segir Sigríður Dögg.
„Og það verður líka að benda á að þetta er fjórðungur af upphæðinni sem allir aðrir einkareknir miðlar á Íslandi fá.“
Sigríður segir að þó hún fagni því að verið sé að auka styrki til einkarekinna miðla hefði verið mun eðlilegra að hækka slíka styrki með þeim fyrirfram ákveðna hætti eins og tíðkast hefur.

„Það er kerfi sem hefur verið samþykkt, það er gagnsætt, það eru reglur um það. Í staðinn fyrir að styrkja með jafn duttlungafullum hætti og þarna er gert.“
Blaðamannafélagið hefur sett málið á dagskrá stjórnarfunds í næstu viku. Sigríður segir að þó hún hafi ekkert á móti því að N4 hljóti slíkan styrk verði það sama að ganga yfir alla miðla.
„Mér finnst mjög erfitt að réttlæta það að þessi miðill fái þennan margfalt hærri styrk en aðrir miðlar, og mér þætti áhugavert að sjá rökstuðning nefndarinnar fyrir því.“