Í yfirlýsingu samtakanna kemur fram að framlög til íslenskra háskóla eru lág í alþjóðlegum samanburði og er það sérstaklega varavert í ljósi lágs menntunarstigs á Íslandi.
Heildartekjur á ársnema við Háskóla Íslands voru 2,9 milljónir árið 2019, til samanburðar voru meðaltekjur á ársnema sama ár við háskóla í Danmörku 5,5 milljónir og 4,8 milljónir í Noregi.
Þá kemur einnig fram í yfirlýsingunni að aðsókn ungs fólks að háskólanámi er mun minni á Íslandi en í öðrum löndum með svipaða efnahagsstöðu. Einungis 38 prósent ungs fólks á aldrinum 25-34 ára hafa aflað sér háskólamenntunar, samanborið við 51 prósent í Noregi og 49 prósent í Svíþjóð.
Samtökin gagnrýna ennfremur áform opinberu háskólanna um hækkun á skrásetningargjaldinu.
„Þá skýtur það skökku við, rétt fyrir samþykkt fjárlagafrumvarps, að rektorar opinberu háskólana beita sér fyrir hækkun skrásetningargjalda í stað þess að beita sér af krafti fyrir hækkun á framlagi hins opinbera til háskólastigsins.”
Samtökin benda á að breytingin yrði veruleg skerðing á jafnrétti til náms.
„Í ljósi lágrar aðsóknar ungs fólks í háskólanám á Íslandi ætti hið opinbera fremur að einbeita sér að því að greiða leið ungs fólks að háskólanámi í stað þess að skapa þeim hindranir.”