Óli var maður leiksins, skoraði 32 stig og hitti úr átta af tólf þriggja stiga skotum sínum. Ofan á það tók hann níu fráköst, fiskaði sex villur og stal boltanum fjórum sinnum.
Ólafur byrjaði fimm af fimm í þriggja stiga skotum í leiknum. „Ég er búinn að vera agalegur í síðustu fjórum-fimm leikjum, 1 af 36 eða eitthvað, ég ákvað að tæma hugann og skjóta fyrsta skotinu sem ég fékk. Það fór ofan í, ég hélt áfram að skjóta, fékk sjálfstraustið og þegar maður hittir þá heldur maður áfram að skjóta. Þetta er auðvelt sport.“
„Ég átti þetta klárlega inni, þetta var komið aðeins inn á sálina en ég náði einhvern veginn að rétta úr kútnum núna og vonandi er þetta eitthvað sem koma skal.“
Ólafur segir að vörnin hafi verið lykillinn að sigrinum í kvöld. „Ég hefði viljað klára þetta í venjulegum leiktíma, en alltaf gaman að fá eitthvað extra fyrir fólkið sem borgar fyrir að koma inn.“
Hann skoraði síðustu tvö stig leiksins af vítalínunni og kom Grindavík í þokkalega þægilega stöðu, þremur stigum yfir fyrir lokasókn Hauka. „Ég var búinn að klikka á einhverjum þremur vítum, varð að setja þetta ofan í og gerði það sem betur fer.“
„Þetta var nauðsynlegur sigur og klárlega gleðilegri jól eftir þennan sigur. Við njótum kannski aðeins í kvöld en svo er það undirbúningur fyrir næsta leik sem er 30. des,“ sagði Ólafur að lokum.