Næsta víst er talið að rafhlöður Insight séu tómar vegna ryks sem safnast hefur saman á sólarsellum þess. NASA hafði ákveðið að binda formlegan enda á leiðangurinn ef ekki næðist samband við farið í tveimur tilraunum í röð. Stjórnendur leiðangursins ætla þó áfram að hlusta eftir skilaboðum frá Insight en afar ólíklegt er að það kvikni aftur til lífsins. Síðast sendi það merki til jarðar 15. desember.
Insight lenti á Mars árið 2018 en meginmarkmið þess var að rannsaka innviði reikistjörnunnar, meðal annars með jarðskjálftamæli. Síðan þá hefur geimfarið numið fleiri en 1.300 „Marsskjálfta“, orðið vitni að loftsteinaárekstrum og gert veigamiklar uppgötvanir um jarðfræðilega virkni Mars.
Jarðskjálftamælirinn var síðasta mælitækið um borð sem var haldið gangandi þegar afl geimfarsins fór þverrandi vegna ryksins.
„Já, það er leitt að kveðja en arfleið Insight lifir áfram og upplýsir og veitir innblástur,“ segir Laurie Leshin, forstjóri Jet Propulsion Lab sem stýrði leiðangrinum, í tilkynningu frá NASA.