Landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson valdi 22 leikmenn í hópinn fyrir leikina á Algarve fyrr í þessum mánuði en sagði líklegt að sá 23. myndi bætast við.
Arnar Þór hefur nú bætt Bjarna við landsliðshópinn. Hann hefur leikið tvo leiki fyrir A-landsliðið, gegn Kanada og El Salvador í janúar 2020.
Bjarni, sem varð 27 ára í fyrradag, leikur með norska B-deildarliðinu Start. Hann kom til liðsins frá Brage í Svíþjóð.
Bjarni lék með KA og Fjarðabyggð áður en hann fór til Kristianstad í Svíþjóð 2016. Hann sneri aftur til KA fyrir tímabilið 2018 og lék þá alla 22 deildarleiki þeirra gulu og bláu um sumarið.