Karfan.is greindi frá möguleikanum á skiptunum fyrr í vikunni og Hilmar Júlíusson, formaður körfuknattleiksdeildar staðfesti við Vísi í dag að þau stæðu til. Gilbert myndi skipta tímabundið til Stjörnunnar eftir leik Hrunamanna við Skallagrím í 1. deild karla annað kvöld.
Gilbert yrði á mála hjá Stjörnunni á meðan bikarvikan fer fram í næstu viku en Stjarnan mætir Keflavík í undanúrslitum bikarsins í Laugardalshöll næsta miðvikudag og úrslitaleikur bikarsins er á laugardag. Eftir bikarvikuna stæði til að Gilbert færi aftur til Hrunamanna.
Spilar með Stjörnunni í kvöld en Hrunamönnum á morgun
Skiptin eru aftur á móti flóknari en svo. Gilbert hefur æft með Stjörnunni í vikunni og sjá má á félagsskiptavef KKÍ að hann hefur fengið í gegn félagsskipti þangað. Hann mun því spila með Garðbæingum gegn Val í Subway-deildinni í kvöld.
Það kemur aftur á móti ekki í veg fyrir að hann spili fyrirhugaðan leik Hrunamanna og Skallagríms annað kvöld. Til stendur hjá Stjörnunni og Hrunamönnum að klára önnur félagsskipti Gilberts á morgun, aftur til Hrunamanna.
Gilbert mun þá skipta í þriðja sinn milli félaganna svo hann geti tekið þátt í bikarnum með Stjörnunni í næstu viku. Að því loknu skiptir hann í fjórða sinn félaganna er hann snýr aftur til Hrunamanna.
Þetta staðfestir Harpa Vignisdóttir, formaður körfuknattleiksdeildar Hrunamanna, í samtali við Vísi.
54 þúsund krónur sem fara aðeins í félagsskiptagjöld
Samkvæmt því sem Hilmar Júlíusson, formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar, sagði í samtali við Vísi fyrr í dag mun Stjarnan bera kostnaðinn af félagsskiptum Gilberts, en greiða þarf Körfuknattleikssambandinu 13.500 krónur fyrir hver skipti.
Útreiknaður félagsskiptakostnaður samkvæmt því sem lá fyrir í morgun var því 27 þúsund krónur. Fyrst skiptin eru fjögur en ekki tvö er ljóst að Stjarnan mun greiða sambandinu 54 þúsund krónur fyrir félagskiptafimleika félaganna tveggja.
Hörður bendir á fáránleikann
Hörður Unnsteinsson, þáttastjórnandi Körfuboltakvölds kvenna á Stöð 2 Sport og körfuboltaþjálfari, segir þetta gott dæmi sem sýni vel fram á hversu veikt regluverkið í kringum félagsskipti innan KKÍ er.
Hann býr til dæmi um það að Skallagrímur og Valur deili með sér leikmanni sem skipti stanslaust á milli.
„Skallagrímur í 1. deild karla og Valur í Subway-deild karla gætu sem sagt keypt sér Kana saman. Valur borgar 70% launa og leikmaðurinn spilar fimmtudagsleik með þeim.“
„Skallagrímur chippar inn 30% af launum og borgar 13.500kr í félagaskipti alla föstudaga. Svo spilar hann með þeim um kvöldið.“ segir Hörður á samfélagsmiðlinum Twitter.
Skallagrímur í 1d kk og Valur í Subway kk gætu semsagt keypt sér kana saman.
— Hörður Unnsteinsson (@hoddiunn) January 5, 2023
Valur borgar 70% launa og leikmaðurinn spilar fimmtudagsleik með þeim.
Skallagrímur chippar inn 30% af launum og borgar 13.500kr í félagaskipti alla föstudaga. Svo spilar hann með þeim um kvöldið.
Stjarnan og Valur mætast í Garðabæ klukkan 20:15 í kvöld, þar sem Gilbert verður í eldlínunni. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og munu Kjartan Atli Kjartansson og félagar í Körfuboltakvöldi kryfja málið til mergjar í kjölfarið.