Körfubolti

„Vonandi sjáum við öll að okkur í þessu máli“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
jon_bender_formadur_kkdi

Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson, körfuboltadómari, lagði flautuna á hilluna í síðasta mánuði. Ástæðan er svívirðingar, dónaskapur og persónuníð. Formaður dómaranefndar KKÍ, Jón Bender, segir starfsumhverfið óboðlegt og undanskilur ekki yngri flokka.

„Það er mjög erfitt að vera dómari í dag og hefur bara jafnvel versnað eftir Covid,“ sagði Jón í samtali við Stöð 2.

„Það eru ekki bara körfuboltadómarar sem finna fyrir þessu, heldur aðrir dómarar líka í öðrum íþróttum og þetta er eitthvað sem þarf að laga.“

„Fyrir framhaldið getur þetta haft þá þýðingu að það verði erfiðara að fá nýliða í dómgæslu og það viljum við ekki sjá. Það hefur verið nógu erfitt fyrir. Þannig að við þurfum að bæta umhverfið og fá alla þá aðstoð sem við getum til þess að halda áfram að fjölga og gera starfsumhverfið betra.“

Þá segir Jón að félögin beri að einhverju leyti ábyrgð á málum sem þessum.

„Já, að einhverju leyti. Það er kannski ekki alfarið þeirra, en þau stýra ekki alveg hverjir koma í húsin. En vissulega þurfa þau að hjálpa okkur að hafa þetta eins og þetta á að vera. Og ekki bara félögin, heldur sérsamböndin og aðrir.“

Jón segir enn fremur að staðan hafi versnað á undanförnum árum.

„Klárlega. Eins og ég segi þá held ég að þetta hafi versnað eftir Covid og í Covid. Maður sér það líka bara almennt í samfélaginu.“

Jóni þykir sérstaklega slæmt að heyra þegar fólk svívirðir dómara persónulega.

„Já og persónulegum. Og það er það sem er slæmt. Það er eitt að púa á dómarann, en það er annað að nota persónulegar svívirðingar.“

Þá segist Jón sem betur fer ekki vita til þess að fleiri dómarar séu að íhuga að leggja flautuna á hilluna.

„Sem betur fer veit ég ekki af því enn þá, en þetta er allt brothætt. Vonandi verður það ekki og vonandi sjáum við öll að okkur í þessu máli.“

Viðtalið við Jón í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Jón Bender, formaður KKDÍ.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×