Gunnhildur og Erin eru nýfluttar til Íslands frá Bandaríkjunum þar sem þær spiluðu saman með liði Orlando Pride, og gengu báðar til liðs við Stjörnuna en þar hóf Gunnhildur sinn meistaraflokksferil.
Í færslu á Facebook greinir Gunnhildur frá því að þær Erin séu auk þess farnar að þjálfa fótbolta hjá Öspinni og hvetji sem flesta til þess að mæta, enda sé fótbolti liðsíþrótt sem sé tilvalin fyrir iðkendur á öllum aldri óháð fötlun.
BS-ritgerðin um íþróttir barna með sérþarfir
Gunnhildur, sem er 34 ára, segist hafa starfað með börnum með sérþarfir um langt árabil, frá því áður en hún fór í atvinnumennsku fyrir áratug síðan.
„Þegar ég bjó á Íslandi byrjuðum við mamma mín með fótboltanámskeið sem hét „Fótbolti fyrir alla“, sem var þá námskeið fyrir börn með sérþarfir. Síðan þá hef ég alltaf unnið með börnum með sérþarfir.
Ég skrifaði BS-ritgerðina mína um íþróttaiðkun barna með sérþarfir, þjálfaði lið í Orlando fyrir börn með einhverfu og var sendiherra fyrir „special olympics“ í Flórída,“ segir Gunnhildur í samtali við Vísi og bætir við:
„Ég vissi að þegar ég kæmi til Íslands vildi ég halda þessu starfi áfram. Ég er mikil baráttukona fyrir því að allir eigi rétt á að stunda íþróttir og þá líka þá íþrótt sem hentar þeim.“
Æfingar hjá Öspinni eru fyrir alla aldurshópa, stelpur og stráka, í Sjálandsskóla í Garðabæ á miðvikudögum frá klukkan 18-19. Skráning er á ospin.is.