Um er að ræða næstsíðasta leik Íslands í undankeppninni en liðið mætir svo Georgíu á útivelli á sunnudaginn í hreinum úrslitaleik um sæti á sjálfu heimsmeistaramótinu. Íslendingar gætu þar með orðið fámennasta þjóð sögunnar til að komast á HM í körfubolta.
Spánverjar, sem unnu síðasta HM, komu til Íslands í gærkvöldi en í stað þess að gista á Grand Hótel, nokkrum metrum frá Laugardalshöllinni, dvelja þeir á Park Inn í Keflavík vegna verkfallsins. Hið sama á við um dómarateymi leiksins.
„Á þriðjudaginn í síðustu viku kom í ljós að við værum að missa gistinguna fyrir þennan hóp, fjörutíu manns, á Grand Hótel. Við þurftum bara að hlaupa til og rétt náðum að græja gistingu í Keflavík,“ segir Kristinn Geir Pálsson, afreksstjóri KKÍ.
Af þessum sökum hættu Spánverjar við að æfa í Laugardalshöll í hádeginu á morgun, á leikdegi, en þeir fá að æfa í Blue-höllinni í Keflavík í staðinn.
Kristinn segir að breytingarnar hafi ekki mikinn aukakostnað í för með sér fyrir KKÍ.
„Þetta er aðallega aukið flækjustig. Aukaakstur og nýtt hótel, með mat, sem við þurfum að sjá til þess að dómararnir og spænska liðið fái. Aukakostnaðurinn felst aðallega í rútuakstrinum,“ segir Kristinn.
Verkfallið hefur ekki áhrif á íslenska landsliðið, að sögn Kristins. Flestir leikmanna liðsins gista í eigin húsnæði eða hjá ættingjum, og ekki þurfti að finna nýtt hótel fyrir þjálfarann Craig Pedersen eða þá leikmenn sem búið var að koma fyrir á hóteli. Íslenski hópurinn heldur svo til Tbilisi eftir rimmuna við Spán og spilar þar á sunnudaginn um sæti á HM.