Körfubolti

Óttast að LeBron James verði frá í margar vikur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James í baráttuni við Luka Doncic í leiknum afdrifaríka um helgina.
LeBron James í baráttuni við Luka Doncic í leiknum afdrifaríka um helgina. AP/LM Otero

LeBron James meiddist í sigurleiknum á móti Dallas Mavericks í NBA-deildinni í körfubolta um helgina og þessi meiðsli virðast vera slæm.

James meiddist á hægri fæti í leiknum og sást haltra út úr höllinni eftir leikinn. Hann hélt að hann hefði stigið á fót leikmanns Dallas en það var hins vegar ekki svo.

James meiddist í þriðja leikhlutanum en skoraði engu að síður 11 af 26 stigum sínum í lokaleikhlutanum þar sem Lakers liðið náði að landa mikilvægum sigri.

Bandarískir fjölmiðlar, eins og ESPN, greina frá því að James gæti verið frá í margar vikur. Frekari rannsóknir eru þó framundan hjá kappanum.

Hinn 38 ára gamli James er nýbúinn að slá stigametið í NBA-deildinni og hefur verið að spila frábærlega í vetur.

Lakers hefur unnið alla þrjá leiki sína með James síðan að liðið skipti frá sér Russell Westbrook.

Staðan var hins vegar það slæm eftir erfitt tímabil að liðið þarf að vinna marga leiki á lokasprettinum ætli það að vera með í úrslitakeppninni í ár.

Það er gríðarlegur munur á Lakers þegar James er inn á vellinum eða þegar hann er utan hans og því mun liðið sakna hans mikið næstu vikurnar.

Síðan James kom til Los Angeles Lakers þá hefur liðið aðeins unnið 37 prósent leikja sinna án hans þar af bara 5 af 14 á þessari leiktíð.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×