Umboðsmaður Alþingis hefur skrifað Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra bréf vegna þess hvernig dómsmálaráðherra stóð að útgáfu reglugerðar sem heimilaði lögreglunni að nota rafbyssur við störf sín. En hann gaf reglugerðina út án þess að ræða málið fyrst í ríkisstjórn. Af bréfinu að skilja þætti umboðsmanni það betri stjórnsýsla ef það hefði verið gert.

„Það snýst ekki um að stjórnarskrá eða lög hafi verið brotin. Hins vegar að það sé eðlilegt aðferlarnir séu skýrir um það hvenær mál eiga erindi inn á borð ríkisstjórnar eða ekki,“ segir Katrín.
Hver ráðherra meti það hverju sinni hvaða mál eigi erindi inn á borð ríkisstjórnar.

„Og í þessu tilviki, og það er ekkert launungarmál, vorum við dómsmálaráðherra í raun og veru ekki sammála um hvort málið væri þeirrar stærðar að það ætti erindi inn á ríkisstjórnarborðið,“ segir forsætisráðherra. Að hennar mati hefði aftur á móti átt að leggja málið fyrir ríkisstjórn fyrst þótt ekki væri deilt um að dómsmálaráðherra hefði heimild til að gefa reglugerðina út.
„Í raun og veru vil ég segja að það er merkilegt að slík mál hafi ekki oftar upp í því ríkisstjórnarsamstarfi sem núna er. Þar sem flokkarnir eru auðvitað með ólíka sýn og ráðherrar með ólíkar skoðanir. Þá er eiginlega merkilegt að það hafi ekki komið upp fleiri svona dæmi,“ segir Katrín.
Umboðsmaður beini því til hennar að taka reglur um starfshætti ríkisstjórnar og siðareglur ráðherra til skoðunar til að koma í veg fyrir að mál sem þessi komi upp. Það verði skoðað. Ríkisstjórnin sé hins vegar ekki fjölskipað stjórnvald og heimildir hvers ráðherra því ríkar.
„En það breytir því ekki að stjórnarráðslögin og stjórnarskráin mæla fyrir um að meiriháttar mál skuli ræða í ríkisstjórn. Þá skiptir auðvitað máli að við reynum að gera rammann um það eins skýran og mögulegt er,“ segir Katrín Jakobsdóttir.