Hópur fólks með SMA birti opið bréf til Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra þar sem þess var krafist að fullorðnum með SMA hér á landi yrði leyft að fá lyf við sjúkdóminum í kjölfar ákvörðunar Norðmanna þess efnis. Hingað til hafa tvö lyf við sjúkdómnum einungis verið leyfð fyrir sjúklinga sem eru yngri en átján ára, bæði hér á landi og á Norðurlöndunum.
Fréttastofa hefur undanfarna daga fjallað ítarlega um sjúkdóminn SMA, Spinal Muscular Atrophy, og þá einstaklinga sem við hann glíma. Af þeim fimmtán sem eru með sjúkdóminn hér á landi fá ellefu ekki lyf þau tvö lyf sem standa til boða, þar sem meðferð getur ekki hafist eftir átján ára aldur.
Willum Þór sagði í kvöldfréttum í gær að til skoðunar væri að heimila notkun lyfsins fyrir fullorðna og að hann vonaðist til þess að ákvörðun yrði tekin innan skamms.
Hæfileikaríkt fólk leggi mat á lyfið
Að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun sagði Willum Þór að mat á gagnsemi lyfja sé í höndum lyfjanefndar Landspítalans og að þar séu þeir sem best þekkja til á sviðinu. „Við búum vel að eiga hæfileikaríkt fólk sem metur þetta jöfnum höndum. Nú er það þannig að Norðurlöndin hafa fylgst að í þessu og þetta er stöðugt í mati. Nú komu síðan fréttir frá Noregi um að nefndin þeirra, sem heitir beslutnings kommissionen, hefur endurmetið þessa afstöðu gagnvart átján ára og eldri. Nú er það okkar að kanna hvað breytir þessu mati og auðvitað er þetta í stöðugri þróun, blessunarlega og lyfjanefnd væntanlega fer yfir það,“ segir Willum.
Ljóst er að SMA er hraðvirkur sjúkdómur og þeir sem þjást af honum megi ekki mikinn tíma missa þegar kemur að því að fá lífsnauðsynleg lyf við honum. Willum segir að nauðsynlegt sé að meta lyfið áður en það verði tekið í notkun fyrir átján ára og eldri.
„Við höfum bara sett þetta í lög þannig að þetta þarf auðvitað að vera faglegt mat. Þetta eru líka þannig lyf að það þarf að tryggja öryggi í meðferð og notkun og taugalæknarnir fylgjast mjög náið með framþróun í þessu. Gagnsemin þarf auðvitað að vera óyggjandi og þetta er kannski á allra síðustu árum sem það eru að koma nýjar upplýsingar fram um gagnsemina af þessu tiltekna lyfi,“ segir hann.
Þar vísar Willum Þór til lyfsins Spinraza, sem Norðmenn veittu nýverið leyfi til notkunar átján ára og eldri. Annað lyf, Evrysdi, hefur einnig fengið leyfi Evrópsku lyfjastofnunarinnar, en hefur sætt sömu takmörkunum vegna aldurs á Norðurlöndunum.
„Vonandi eru nýjar upplýsingar sem breyta þessu mati og af því að Norðurlöndin hafi fylgst að þá geri ég ráð fyrir því að það séu einhverjar upplýsingar sem útskýra þetta endurmat,“ segir Willum Þór.
Matið verði einstaklingsbundið
Willum Þór segir að hann sýni afstöðu þeirra sem þjást af SMA mikinn skilning og að hann hafi tekið áskorun þeirra í gær.
Þó segir hann að árið 2019 hafi lyfið verið metið hvað varðar notkun einstaklings hér á landi á því og það ekki hlotið samþykki. Þá bendi þau gögn, sem hann hefur kynnt sér varðandi samþykkt Norðmanna á notkun lyfsins fyrir fullorðna, til þess að matið verði alltaf einstaklingsbundið og því metið í hverju tilviki fyrir sig hvort fullorðnir fái lyfið.