Tindastólsmenn eru komnir 2-0 yfir í undanúrslitaeinvíginu gegn Njarðvík en allt annað var að sjá til þeirra grænklæddu í kvöld miðað við frammistöðu liðsins í fyrsta leik sem tapaðist nokkuð örugglega í Njarðvík.
„Ég hefði viljað fá þessa orku og þennan kraft í leik eitt, þetta var allt annað,“ sagði Benedikt í viðtali við Svala Björgvinsson eftir leik. „Allt annað lið, allt annar kraftur og svona vil ég hafa þetta alltaf og þá erum við alltaf í möguleika á að vinna leiki. Ég er ánægður með það en samt er það aðeins meira svekkelsi núna að við skildum ekki hafa mætt svona í leik eitt en Stólarnir voru bara skrefi á undan í dag. “
Það voru margar villur dæmdar í leiknum í kvöld en Benedikt íjaði að því hvort hann ætti að fara í dómaraumræðu í viðtalinu.
„Þetta var harður leikur en við ætluðum bara að spila á þeirri línu sem þeir hafa verið að spila á í seríunni, vera með smá fight, en það þýddi bara að þeir voru hérna á vítalínunni í allt kvöld.“
Bjartsýnn á heimasigur á miðvikudaginn
Njarðvík er 2-0 undir í seríunni og það þýðir að Tindastóll þarf aðeins einn sigur til viðbótar til að klára hana. Njarðvíkingar ætla ekki að láta það gerast.
„Eftir leik eitt fór ég heim með algjört óbragð í munninum. Ég get sætt mig við tap, eins ömurlegt og það er, ef menn leggja sig fram líkt og þeir gerðu hér í kvöld. Eftir þennan leik er ég bjartsýnn á heimasigur á miðvikudaginn og að við minnkum þennan mun niður í stöðuna 2-1. Svo mætum við hingað aftur og jöfnum þetta 2-2.
Þetta verður ekkert fyrsta serían í úrslitakeppninni í Íslandsmótinu í ár sem fer í oddaleik eftir að annað liðið hefur komist í 2-0.“