Innlent

Fólk verði að vera með augun á umferðinni: „Hvort sem þú ert með ADHD eða ekki“

Máni Snær Þorláksson skrifar
Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna, segir mikilvægt að fólk sé með augun á umferðinni.
Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna, segir mikilvægt að fólk sé með augun á umferðinni. Vísir/Arnar

Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði í gærkvöldi bifreið sem hafði rásað ansi mikið á veginum. Í ljós kom að ökumaðurinn hafði verið að horfa á þátt í símanum sínum á meðan á akstri stóð. Formaður ADHD samtakanna tekur ekki undir með athugasemd þar sem því er velt upp að símagláp hjálpi fólki með ADHD að halda athygli við aksturinn.

Athugasemd nokkur sem skrifuð var við frétt Vísis um málið í gær hefur vakið töluverða athygli á samfélagsmiðlum. Í athugasemdinni var því haldið fram að það væri öruggara fyrir fólk með ADHD að horfa á sjónvarpsþátt við akstur. Án þess sé það með hugann út um allt og það sé stórhættulegt.

Það er vel þekkt að sumt fólk með ADHD geti einbeitt sér betur með því að hafa meira í gangi. Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna, segir að hann geti til dæmis verið að leggja kapal á meðan hann er á fundi eða að gera eitthvað annað.

Stór munur sé þó á því og að vera með sjónvarpsþátt í gangi á meðan á akstri stendur: „Það almennt séð er vel þekkt en að vera með beint sjónvarpsáreiti á meðan þú ert undir stýri á bíl, það gengur einfaldlega ekki upp,“ segir Vilhjálmur í samtali við fréttastofu.

„Það þarf ekkert voðalega mikla sálfræði til að skýra það held ég

Fólk verði að hafa augun á umferðinni

Vilhjálmur segir að það geti hjálpað fólki með ADHD að vera með eitthvað í gangi á meðan á akstri stendur, það virki þó ekki ef fólk er að horfa á efnið. „Það getur vel verið að það hjálpi fólki að spila talað efni eða tónlist eða eitthvað svoleiðis en um leið og þú ert farinn í eitthvað svona sjónrænt, það gengur bara ekki upp,“ segir hann.

„Ef þú ert að aka tveggja tonna ökutæki þá gengur ekki upp að horfa á sjónvarp.“

Fólk þurfi því að finna aðrar leiðir sem krefjast ekki sjónrænnar truflunar. „Því það segir sig sjálft, þú verður að hafa augun á umferðinni. Hvort sem þú ert með ADHD eða ekki,“ segor Vilhjálmur.

„Það er það fyrsta sem skiptir máli, fylgjast með umferðinni og öðru í kringum þig. Það í raun og veru getur líka verið nóg fyrir okkur með ADHD, eins og þegar ég er í langkeyrslu þá er ég löngu búinn að skanna allan fjárann á undan. Ég veit þegar það kemur bíll eftir fimm mínútur, þannig held ég fókusnum.“

Tvær hliðar á ADHD peningnum

Vilhjálmur segir að það sé þekkt hjá fólki með ADHD að vera með nokkra bolta á lofti í einu. Það geti verið bæði gott og slæmt. „Fyrir flest okkar er ekki gott að vera með bara eitthvað eitt, nema það sé algjörlega að taka okkur og við týnumst í það,“ segir hann.

„Sumir kalla þetta súperfókus, hann getur bæði verið æðislegur og líka slæmur. Ég er farinn að kunna á þetta hjá mér í dag, ég kann að kveikja á honum en ég verð stundum að passa mig að detta ekki í hann því þá get ég verið of lengi í honum.“

Hann segir að eiginleikarnir sem fylgja ADHD séu í raun bæði góðir og slæmir. „Það eru tvær hliðar á þessum peningi sem ADHD er. Suma daga flækja þessir eiginleikar fyrir manni en aðra daga gera þeir manni kleift að gera hluti sem aðrir geta ekki,“ segir hann.

Skilaboðin til þeirra sem eiga erfitt með að halda einbeitingu undir stýri eru þó einföld:

„Þegar þú ert undir stýri, fylgstu með umferðinni - það er nóg að gerast þar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×