Fótbolti

Þarf að hefna sín á Ronaldo

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Age Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, segist þurfa að hefna sín á portúgölsku stórstjörnunni Cristiano Ronaldo.
Age Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, segist þurfa að hefna sín á portúgölsku stórstjörnunni Cristiano Ronaldo. Samsett/Hulda Margrét/Getty

„Ég þarf að hefna mín á Cristiano Ronaldo,“ sagði Åge Hareide, nýráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta í dag þegar hann var spurður út í hvort hann væri spenntur að mæta portúgölsku stórstjörnunni á Laugardalsvelli síðar í mánuðinum.

Ronaldo og félagar í portúgalska landsliðinu mæta á Laugardalsvöllinn þann 20. júní næstkomandi þegar Ísland og Portúgal mætast í undankeppni EM 2024.

Hareide sat fyrir svörum í dag eftir að fyrsti landsliðshópurinn undir hans stjórn var kynntur og undir lok blaðamannafundarins var hann spurður út í það hvort hann væri spenntur að taka á móti Ronaldo.

Mikilvægt að tala ekki um Ronaldo

„Ég þarf að hefna mín á Cristiano Ronaldo,“ sagði Hareide léttur. „Ég man þegar ég var að þjálfa Malmö þá spiluðum við á móti honum á heimavelli í Meistaradeildinni. Hann átti ekki skot að marki fyrr en á 44. mínútu og þá skoraði hann.“

„Hann hreyfði sig ekki. Hann stóð bara þarna, boltinn datt fyrir hann og hann skoraði. Það vita allir að hann skorar mörk, en það mikilvægasta sem þú getur gert þegar þú ert að fara að spila gegn Portúgal er að tala ekki um Cristiano Ronaldo. Við þurfum að einbeita okkur að okkar liði og leggja hart að okkur.“

Þá sagðist landsliðsþjálfarinn vonast eftir alvöru íslensku veðri þegar Ronaldo mætir á völlinn.

„Vonandi verður norðvestan stormur. Vestanátt og haglél. Það myndi henta okkur best því ég held að hann myndi ekki kunna vel við sig í þannig veðurfari. Hann er vanari veðrinu í Sádi-Arabíu þannig að vonandi verður vont veður,“ sagði Hareide léttur að lokum


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×