Fótbolti

Lagerbäck búinn að ræða við Gylfa Þór

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með íslenska landsliðinu á EM 2016 undir stjórn Lars Lagerbäck.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með íslenska landsliðinu á EM 2016 undir stjórn Lars Lagerbäck. Kevin Barnes/CameraSport via Getty Images

„Ef hann kýs að koma aftur myndi það hafa ótrúlega jákvæð áhrif á landsliðið,“ segir Lars Lagerbäck, fyrrverandi þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, um möguleikann á því að Gylfi Þór Sigurðsson snúi aftur í liðið.

Lars er staddur hér á landi um þessar mundir og mun fylgjast með leikjum Íslands gegn Slóvakíu og Portúgal í undankeppni EM. Lars þarf vart að kynna fyrir þjóðinni en Ís­lenska lands­liðið komst á fyrsta skipti á stór­mót undir stjórn hans og fór alla leið í 8-liða úr­slit á EM 2016.

Knattsprnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson hefur ekki leikið knattspyrnu frá því að hann var handtekinn um mitt ár 2021, sakaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi. Mál hans hefur nú verið fellt niður og Gylfa því frjálst að leika knattspyrnu á ný.

Möguleg endurkoma Gylfa í landsliðið hefur því eðlilega verið mikið í umæðunni og Lars segir að það væri virkilega sterkt fyrir liðið að fá hann aftur inn.

„Ef hann kemur aftur, miðað við hvernig hann var og hann er enn ungur og ég veit að Gylfi er hundrað prósent atvinnumaður, ef hann kýs að koma aftur myndi það hafa ótrúlega jákvæð áhrif á landsliðið,“ sagði Lars í samtali við Stöð 2 í gær.

„Ég hafði samband við Gylfa fyrir einhverjum mánuðum, en hann sagði ekkert um það hvað hann vildi gera. En ég vona bæði fyrir íslenskan fótbolta og fyrir Gylfa [að hann komi aftur]. Það væri ótrúlega gott að sjá hann á vellinum aftur og þá sérstaklega með landsliðinu,“ sagði Lars að lokum.

Klippa: Lars Lagerbäck um mögulega endurkomu Gylfa



Fleiri fréttir

Sjá meira


×