Collins var valinn af Hawks í nýliðavali NBA 2017 með 19. valrétt og hefur síðan þá hægt og bítandi unnið sér sess sem byrjunarliðsmaður og verið drjúgur skorari. Tímabilið 2020-21 skoraði hann rúm 17 stig að meðaltali í leik og tók rúmlega 7 fráköst, og fékk í kjölfarið nýjan og sæmilega feitan samning.
Hann var í vetur næst launahæsti leikmaður liðsins með 23,5 milljónir í árslaun og var með samning til loka árs 2026, síðasta árið með ákvæði um framlengingu ef hann svo kysi. En nú er ljóst að Hawks hafa ekki áhuga á að borga honum meira og fá í staðinn Rudy Gay, sem er á síðustu metrum síns ferils.
Gay, sem er fæddur 1986 og verður 37 ára í ágúst, hefur síðustu fjögur tímabil aðeins verið sex sinnum í byrjunarliði, mun fá tæpar 6,5 milljónir í laun næsta vetur, samanborið við rúmar 25 milljónir sem Collins á inni.
Hér er því fyrst og fremst um sparnaðaraðgerð að ræða hjá Hawks sem um leið búa sér til svigrúm fyrir frekari breytingar og uppbyggingu á sinni liðskipan.