Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins um málið kemur fram að Sameinuðu þjóðirnar, sem fara með málið fyrir hönd Bandaríkjanna, verjist frekari frétta af svörum Norður-Kóreumanna. Segja talsmenn þeirra að þetta sé gert til að reka ekki fleyg í viðræður við einræðisstjórnina.
Eins og Vísir hefur greint frá hefur hermaðurinn verið í haldi Norður-Kóreumanna síðan þann 18. júlí síðastliðinn. Til stóð að flytja King til Bandaríkjanna til að ávíta hann eftir að hann lenti í áflogum við lögregluþjóna í Suður-Kóreu.
Hann hafði setið í fangelsi í tvo mánuði vegna málsins. Þegar átti að flytja hann til síns heima tókst honum að flýja á flugvellinum.
Þaðan kom hann sér í skoðunarferð um þorpið Panmunjom á sameiginlega öryggissvæðinu svokallaða við landamærin. Þar hljóp hann viljandi til Norður-Kóreu og var handsamaður af hermönnum.
Síðan þá hefur ekkert frést af honum og yfirvöld í Norður-Kóreu hafa hingað til neitað að svara fyrirspurnum Sameinuðu þjóðanna, sem fara með stjórn öryggissvæðisins. Forsvarsmenn Sameinuðu-þjóðanna segja að þau muni róa öllum árum að því að endurheimta hermanninn.