Sport

Björgvin Karl píndi sig fyrir peningana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Karl Guðmundsson þurfti að berjast í gegnum bakmeiðsli á þessum heimsleikum.
Björgvin Karl Guðmundsson þurfti að berjast í gegnum bakmeiðsli á þessum heimsleikum. Instagram/@bk_gudmundsson

Björgvin Karl Guðmundsson náði að klára heimsleikana í CrossFit og tryggja sér ellefta sætið þrátt fyrir að vera glíma við þráðlát bakmeiðsli í allt sumar.

Björgvin Karl sagði frá meiðslum sínum eftir slaka grein þar sem hann endaði í 30. sæti og var augljóslega langt frá sínu besta.

Björgvin viðurkenndi þá að það væru peningaverðlaunin sem héldu meiddum Björgvini gangandi en hann er atvinnumaður í CrossFit og allt tímabilið miðast við það að uppskera á heimsleikunum.

„Mér líður ömurlega ef ég segi alveg eins og er,“ sagði Björgvin Karl Guðmundsson í samtali við fréttakonu Talking Elite Fitness.

Hún vildi fá að vita hvað væri í gangi hjá okkar manni.

„Ég hef verið meiddur í allt sumar eða síðan á undanúrslitamótinu. Ég hef kannski náð einni lyftingaræfingu á fjórum síðustu mánuðum,“ sagði Björgvin Karl sem er meiddur í baki.

En hvað er hann að segja við sjálfan sig til að komast meiddur í gegnum svona krefjandi helgi eins og heimsleikarnir eru?

„Að ná í peningana. Svo einfalt er það,“ sagði Björgvin Karl hreinskilinn.

Ellefta sætið er enn merkilegri árangur hjá Björgvini miðað við þessar upplýsingar en hann hefur ekki verið neðar í níu ár og þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2014 sem hann er ekki í hópi tíu efstu.

Björgvin Karl náði fjórða sætinu árið 2021 en hefur síðan dottið niður á tveimur heimsleikum í röð en hann varð í níunda sæti í fyrra og svo í ellefta sæti í ár.

Ellefta sætið gaf Björgvini tuttugu þúsund Bandaríkjadali í verðlaunafé eða rúmar 2,6 milljónir. Hann hefði fengið tvöfalt meira hefði hann náð fimmta sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×