Wagner-hópurinn er umsvifamikill í fjölda Afríkulanda, þar á meðal Malí, nágrannaríki Nígers. Málaliðarnir eru sakaðir um aragrúa mannréttindabrota í álfunni.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir breska ríkisútvarpinu BBC að hann telji að hvorki Wagner né stjórnvöld í Kreml hafi átt þátt í valdaráni herforingjastjórnarinnar í Níger fyrir tveimur vikum en að þeir hafi reynt að hagnýta sér það.
„Alls staðar sem þessi Wagner-hópur kemur hafa dauði, eyðilegging og arðrán fylgt í kjölfarið. Óöryggi hefur aukist en ekki minnkað,“ sagði Blinken.
Victoria Nuland, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, varaði leiðtoga valdaránsins við því að leita á náðir Wagner þegar hún ræddi við þá í gær. Hún lýsti viðræðunum sem erfiðum og beinskeyttum. Þeir átti sig á hættunni sem fylgi því að vinna með Wagner-liðum.
BBC segir ekki ljóst hvort að Wagner-liðar séu komnir til Nígers. Jevgeníj Prigozhin, leiðtogi hópsins, hvatti herforingjastjórnina til að hafa samband í skilaboðum á samfélagsmiðlinum Telegram í dag.
„Við erum alltaf með þeim góðu í liði, með réttlætinu og með þeim sem berjast fyrir fullveldi sínu og réttindum þjóðar sinnar,“ sagði Prigozhin.

Veifa rússneskum fána
Til stendur að ræða ástandið í Níger á ráðstefnu Efnahagsbandalags Vestur-Afríkuríkja (ECOWAS) á fimmtudag. Bandalagið hafði skorað á herforingjastjórnina að gera Mohamed Bazoum aftur að forseta. Hann hefur verið í haldi valdaræningjanna frá því í síðasta mánuði.
Ríkin hafa ekki útilokað hernaðaríhlutin í Níger. Blinken sagði í dag að samningaviðræður væru ákjósanlegri en hernaðarátök. Hann hefur ekki tjáð sig um hvað verður um fleiri en þúsund bandaríska hermenn sem eru í Níger.
Níger er fyrrverandi frönsk nýlenda. Valdaráninu hefur fylgt vaxandi andúð á Frakklandi og aðdáun á Rússlandi. Reuters-fréttastofan segir að sumir stuðningsmenn valdaránsins veifi rússneska fánanum. Svipað gerðist eftir valdarán í nágrannaríkinu Malí árið 2021. Valdarræningjarnir þar vörpuðu frönskum hermönnum og alþjóðlegu friðargæsluliði á dyr og buðu Wagner-liðum í staðinn.
Malíski herinn og Wanger-liðar eru sakaðir um að hafa tekið hundruð óbreytta borgara af lífi í hernaðaraðgerðum gegn aðskilnaðarsinnum í landinu.