Í umfjöllun Guardian kemur fram að fellibylurinn sé nú skammt frá vesturströnd Bandaríkjanna og Mexíkó. Búist er við því að veðurofsinn fari minnkandi á næstu dögum og verði orðinn að hitabeltisstormi þegar hann fer yfir suðurhluta Kaliforníuríkis.
Ef af verður er um að ræða fyrsta hitabeltisstorminn sem fer yfir Kaliforníu í 84 ár. Hafa yfirvöld í Bandaríkjunum áhyggjur af þeirri gríðarlegu rigningu sem fylgja mun veðrinu og flóðum sem munu fylgja.
Yfirvöld í Mexíkó hafa þegar gert ráðstafanir vegna komu Hilary og meðal annars boðað lokun skóla næstu daga. Haft er eftir Montserrat Caballero Ramírez, borgarstjóra Tíjúana borgar þar sem búa yfir 1,9 milljónir manna, að opnaðar verði í hið minnsta fjórar fjöldahjálparstöðvar í borginni á meðan veðrið ríður yfir.
Í umfjöllun Guardian kemur fram að yfirvöld í suðurhluta Kaliforníuríkis hafi á meðan róið að því öllum árum að koma heimilislausu fólki í skjól áður en veðrið ríður yfir. Þá hefur Joe Biden, Bandaríkjaforseti, sagt ríkisstjórnina fylgjast með málum vegna veðursins.
Haft er eftir Janice Hahn, formanni viðbragðsnefndar á vegum Los Angeles sýslu að enginn hafi búist við því að þurfa nokkurn tímann að þurfa að undirbúa sig undir slíkt veður. Verið sé að vinna að því að aðstoða íbúa við að undirbúa sig fyrir veðrið, meðal annars með því að útdeila sandpokum til flóðvarna.
Þá er haft eftir Kristen Corbosiero, loftlagsvísindamanni á vegum Albany háskóla að ef rigni eins mikið og búist sé við, sé það sögulegt met. Búist er við um sex sentímetra rigningu. „Slíkt hefur aldrei áður gerst í suðurhluta Kaliforníu,“ segir Kristen.