Á vef Rannsóknarmiðstöðvarinnar kemur fram að 31% íbúa jaðarsvæða höfuðborgarsvæðisins sem sækja vinnu á höfuðborgarsvæðið segi að breyting hafi orðið á vinnusókn sinni í kjölfar Covid-19 faraldursins. Á sama tíma hafi breyting orðið á vinnusókn 23% íbúa nærsveita Akureyrar sem sækja vinnu til Akureyrar.
Niðurstöðurnar fengust úr skýrslu að nafni Áhrif fjarvinnu á vegakerfið, sem var unnin af Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri. Tilgangur rannsóknarinnar var að bæta stöðu þekkingar um áhrif fjarvinnu á ferðamynstur og þar af leiðandi á vegakerfið.
Breytingin mest á Suðurlandi
Að auki kemur fram að á Suðurlandi hafi mesta breytingin á vinnusókn orðið í kjölfar Covid, eða hjá 39% íbúa, samanborið við 21% íbúa Vesturlands og 31% íbúa Suðurnesja.
Þá kom fram í niðurstöðunum að 68% íbúa jaðarsvæða höfuðborgarsvæðisins, sem sóttu vinnu á höfuðborgarsvæðið, sóttu þangað vinnu fimm sinnum í viku eða oftar fyrir Covid. Nú gera 53% íbúa það.
Með jaðarsvæðum höfuðborgarsvæðisins er þá átt við Akranes, Hveragerði, Selfoss, Þorlákshöfn, Eyrarbakka, Stokkseyri, Reykjanesbæ, Grindavík, Sandgerði, Voga og Hafnir.
Flestir íbúar Suðurlands sem vinna á höfuðborgarsvæðinu sækja nú vinnu til höfuðborgarsvæðisins fjórum sinnum í viku, frekar en fimm sinnum í viku.
Þá megi gróflega áætla að árdagsumferð, meðalumferð á dag yfir árið, hafi dregist saman um allt að 1,6 á veginum frá Suðurlandi til höfuðborgarsvæðisins vegna samdráttar í vinnusókn.
Vísbendingar um kynjamun í vinnusókn
Í skýrslunni kemur fram að viðsnúningur hafi orðið á hlutfalli þeirra sem segjast hafa möguleika á fjarvinnu eftir faraldurinn. Í rannsókn frá ViaPlan frá 2018 hafi milli 60 og 70% íbúa Akraness, Selfoss og Hveragerðis sagst ekki hafa möguleika á fjarvinnu. Eftir faraldurinn sögðust 37% þeirra sem sækja vinnu utan heimabyggðar ekki hafa möguleika á því. Því virðist aukning hafa orðið á möguleikum á fjarvinnu eftir faraldurinn.
Loks kemur fram að talsverður kynjamunur sé að finna í könnuninni um vinnusókn, að 65% þeirra kvenna sem sóttu vinnu utan heimabyggðar gerðu það fimm sinnum í viku eða oftar fyrir faraldurinn en aðeins 45% eftir hann. Þá sé breytingin einungis fjögur prósent hjá körlum, úr 75% í 71%.