Ivo Braz kom Aftureldingu yfir í Grafarvogi en heimamenn svöruðu með tveimur mörkum fyrir lok fyrri hálfleiks. Bjarni Gunnarsson jafnaði metin og Júlíus Már Júlíusson kom heimamönnum yfir.
Bjarni kom Fjölni í 3-1 snemma í síðari hálfleik áður en Bjarni Páll Linnet Runólfsson minnkaði muninn fyrir Aftureldingu. Hákon Ingi Jónsson gulltryggði svo sigurinn í uppbótartíma.
Staðan á toppi deildarinnar er þannig að Mosfellingar eru með 40 stig, líkt og ÍA sem á leik til góða. Fjölnir er svo með 36 stig þegar tvær umferðir eru eftir. Efsta lið deildarinnar fer beint upp í Bestu deildina en liðin í 2. til 5. sæti fara í umspil um sæti í Bestu.
Þá vann Þróttur R. stórsigur á Grindavík, lokatölur 5-0. Hinrik Harðarson skoraði þrennu fyrir Þrótt á meðan Sam Hewson og Baldur Hannes Stefánsson skoruðu eitt mark hvor. Sigurinn lyftir Þrótti upp í 9. sæti með 23 stig, þremur fyrir ofan Selfoss sem er í fallsæti.