Breiðablik sigraði Struga frá Norður-Makedóníu í umspili um sæti í Sambandsdeildinni. Báðum leikjunum lauk með 1-0 sigri og Blikar því verðskuldaðir sigurvegarar. Eftir leik var Höskuldi Gunnlaugssyni tíðrætt um árangur Blika á Kópavogsvelli í Evrópu á undanförnum árum en ljóst er að Breiðablik fær ekki að spila á sínum ástkæra heimavelli í riðlakeppninni.
„Laugardalsvöllur er eini völlurinn sem hægt er að spila heimaleikina hér á landi,“ sagði Flosi Eiríksson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, í samtali við íþróttavef mbl.is eftir sigur gærkvöldsins.
Þá sagði Flosi einnig að reglur UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, væru þannig að liðið yrði að spila heimaleiki sína á sama velli. Þannig gæti liðið ekki spilað fyrsta leikinn sinn á Laugardalsvelli og fært sig svo erlendis í desember.
„Við munum skoða aðra möguleika, til dæmis erlendis,“ bætti Flosi við í viðtali sínu við mbl.is en Blikar virðast ekki geta farið til Færeyja þar sem KÍ Klaksvík er einnig í riðlakeppninni.
Riðlakeppni Sambandsdeildarinnar hefst þann 21. september og lýkur snemma í desember. Þar með er ljóst að Breiðablik myndi leika sinn síðasta „heimaleik“ um miðjan nóvember eða í fyrri part desember.
Stóra spurningin fyrir Breiðablik er þá einfaldlega hvort Laugardalsvöllur sé leikfær svo langt inn í veturinn og hvað það myndi kosta að halda vellinum í toppstandi þangað til.