Körfubolti

Nýr leik­maður Njarð­víkur var dæmd fyrir heimilis­of­beldi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tynice Martin lék með West Virgina háskólanum þegar hún var handtekin og dæmd fyrir heimilisofbeldi.
Tynice Martin lék með West Virgina háskólanum þegar hún var handtekin og dæmd fyrir heimilisofbeldi. getty/John Rivera

Nýr leikmaður Njarðvíkur í Subway deild kvenna í körfubolta er með dóm á bakinu fyrir heimilisofbeldi.

Í sumar var greint frá því að Njarðvík, sem varð Íslandsmeistari 2022, hefði samið við þrjá erlenda leikmenn: Króatann Andelu Strize, Danann Enu Viso og Bandaríkjakonuna Tynice Martin.

Fyrir fjórum árum var sú síðastnefnda dæmd í eins árs skilboðsbundið fangelsi fyrir heimilisofbeldi.

Í frétt West Virgina Metro News kemur fram að lögregla hafi verið kölluð til sumarið 2019 vegna gruns um að Martin hafi beitt kærustu sína ofbeldi. Hún var í kjölfarið handtekin. Martin lék þá með West Virgina háskólanum.

Rannsókn á málinu leiddi í ljós að Martin fór inn á heimili kærustunnar og togaði í hár hennar. Martin og önnur kona ýttu kærustunni síðan á skjólhurð áður en þær lömdu hana, hrintu og tóku hálstaki. 

Í nóvember 2019 fékk Martin eins árs skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir líkamsárás. Hún þurfti að gegna fimmtíu klukkustunda samfélagsþjónustu.

Los Angeles Sparks valdi Martin með 34. valrétti í nýliðavali WNBA 2020. Hún hefur einnig leikið í Úkraínu, Svíþjóð, Kósovó og Finnlandi þar sem hún var síðasta vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×