Leigubílstjórinn, sem vill ekki láta nafns síns getið, segir í samtali við Vísi að hann hafi ákveðið að elta manninn á hlaupahjólinu þegar hann tók eftir því að hann ók óeðlilega hratt.
Hann hafi viljað aka meðfram manninum til þess að mæla hraða hans með hraðamæli sem er innbyggður í bílamyndavélinu. Í myndskeiðinu hér að neðan má sjá eltingarleikinn og neðst á skjánum má sjá hraða leigubílsins.
Ljóst er að leigubílstjórinn gerðist brotlegur við lög þar sem hámarkshraði á Sæbraut er aðeins sextíu kílómetrar á klukkstund. Hann segir það hafa verið þess virði til þess að ljóstra upp um það sem hann telur alvarlegra brot mannsins á rafhlaupahjólinu.
Á vef Samgöngustofu segir að rafhlaupahjól tilheyri flokki reiðhjóla og séu hönnuð til aksturs á hraða frá sex til 25 kílómetra hraða á klukkustund. Þá sé ólöglegt að breyta þeim þannig að þau komist hraðar.
Leigubílstjórinn segist vonast til þess að lögreglan bregðist við myndbandinu, enda telji hann rafhlaupahjól, sér í lagi þau sem hefur verið breytt, stórhættuleg farartæki.
Fyrsta banaslysið varð á svipuðum slóðum
Fyrsta banaslysið sem varð á rafhlaupahjóli hér á landi varð á Sæbraut fyrir tæpum tveimur árum. Þá lést ökumaður rafhlaupahjóls.
Hraðatakmarkari rafhlaupahjólsins, sem ekið var á rafknúið bifhjól í banaslysinu, hafði verið aftengdur fyrir slysið. Bifhjólinu var ólöglega ekið á hjólastígnum.
Guðbrandur Sigurðsson aðstoðaryfirlögregluþjónn ræddi rafhlaupahjól og vandamál sem þeim geta fylgt í Íslandi í dag í gær. Meðal annars þann möguleika að notendur geta breitt hjólum sínum þannig að hægt er að aka þeim á ofsahraða.