„Til að byrja með horfði ég mjög lítið á fótbolta. Síðustu leiki hef ég verið að fylgjast með. Sá Bosníuleikinn og seinni hálfleikinn gegn Lúxemborg. Þannig að ég hef aðeins fylgst með síðustu leikjum,“ segir Gylfi Þór í samtali við Guðmund Benediktsson um hvort hann hefði fylgst með íslenska landsliðinu síðustu ár.
Landsliðsmaðurinn viðurkennir að hann horfi heilt yfir ekki mikið á bolta í sjónvarpinu.
„Ég hef gert lítið af því síðustu sjö ár og enn minna í dag. Þegar maður á litla dóttur þá velur maður frekar að eyða tíma með henni en að horfa á fótbolta. Þegar maður er sjálfur að æfa á daginn og spila um helgar. Eins og staðan er í dag horfi ég mjög lítið á fótbolta.“