Íslenska liðið kom inn í leik dagsins með fullt hús stiga eftir 2-1 sigur gegn Tékklandi í fyrstu umferð undankeppninnar.
Litháen hafði hins vegar leikið tvo leiki í riðlinum og tapað þeim báðum, naumlega gegn sterku liði Danmerkur og svo gegn Wales.
Leikið var í Litháen og mættu heimamenn af krafti í leikinn. Liðin skiptust á að sækja en án árangurs í fyrri hálfleik.
Það varð fljótt ljós í seinni hálfleik að eitthvað sérstakt þyrfti að gerast til þess að fyrsta markið myndi líta dagsins ljós og það gerðist á 67. mínútu.
Þá barst boltinn til Davíðs Snæs Jóhannssonar rétt fyrir utan vítateig. Hann smellti boltanum upp í fjærhornið og kom Íslandi yfir. Stórkoslegt mark hjá FH-ingnum.
Það dró svo til tíðinda á 74.mínútu þegar að Lúkas Petersson, markvörður Íslands braut á sóknarmanni Litháen. Dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu og rak Lúkas af velli með rautt spjald.
Þarna fengu heimamenn frá Litháen kjörið tækifæri til þess að jafna leikinn en Adam Ingi Benediktsson, sem kom inn í mark Íslands fyrir Lúkas, gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnu Armandas Kucys.
Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum og vann íslenska landsliðið því afar sætan sigur á Litháen sem gerir það að verkum að liðið er með fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leiki sína í undankeppninni og situr liðið í efsta sæti I-riðils en það gæti breyst síðar í kvöld og veltur á því hvernig leikur Tékka og Dana fer.
Ísland mætir næst Wales í undankeppninni á útivelli þann 16.nóvember næstkomandi.