Körfubolti

Úlfur Úlfur: Mundi ekkert eftir viðtalinu sem hann fór í eftir að Stólarnir unnu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Sæmundur í viðtalinu fræga.
Helgi Sæmundur í viðtalinu fræga. S2 Sport

Gestur Körfuboltakvölds Extra í gær var Helgi Sæmundur sem er meðlimur og annar stofnanda hljómsveitarinnar Úlfur Úlfur.

Helgi er mikill stuðningsmaður Tindastóls og var að sjálfsögðu á staðnum þegar Stólarnir urðu Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í vor.

„Hvernig var að verða Íslandsmeistari?“ spurði Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður Subway Körfuboltakvölds Extra.

„Það var gott en það var erfitt. Það reif í,“ sagði Helgi Sæmundur brosandi.

„Þú ferð í viðtal hjá okkur og ég er búinn að senda það inn til Eddunnar sem viðtal ársins. Það verður mjög líklega það. Þú ert glaður þarna,“ sagði Stefán Árni léttur.

„Fyrir alla leikina í Reykjavík þá vorum við með fyrirpartý í Ölveri. Fyrir alla heimaleikina þá vorum við með partý fyrir utan íþróttahúsið. Þegar taugarnar eru að brenna svona og maður er að drekka bjóra með,“ sagði Helgi Sæmundur.

Hann segist því hafa verið búinn að drekka mjög marga bjóra þegar hann fór í viðtalið í settinu hjá Körfuboltakvöldi.

„Svo var partý eftir leikinn og ég var síðan kominn heim kannski fjögur, hálf fimm. Ég vakna níu um morguninn með drengnum og það eru svona tuttugu sekúndur frá því að ég vakna þangað til að ég er búinn að opna Stöð 2 Appið í símanum,“ sagði Helgi Sæmundur sem hafði áhyggjur af því hvað hann sagði í viðtalinu.

„Ég mundi eftir því að hafa farið í viðtalið en ég man ekkert hvað ég sagði. Það var alveg hræðilegt. Þetta er samt alveg fyndið en ég var ekki að enda lífið mitt þarna,“ sagði Helgi Sæmundur sem skammaðist sín samt en þetta var þó staður og stund fyrir svona.

Klippa: Körfuboltakvöld Extra: Viðtalið sem Helgi Sæmundur (Úlfur Úlfur) fór í



Fleiri fréttir

Sjá meira


×