Körfubolti

Pabbi Plum lét hana labba heim ef hún tapaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kelsey Plum fagnar titli Las Vegas Aces með liðsfélögunum sínum.
Kelsey Plum fagnar titli Las Vegas Aces með liðsfélögunum sínum. Getty/Sarah Stier

Kelsey Plum er í hópi bestu leikmanna WNBA deildarinnar og varð á dögunum meistari annað árið í röð með liði Las Vegas Aces.

Plum er leikstjórnandi liðsins og var með 18,7 stig og 4,5 stoðsendingar að meðaltali í deildarkeppninni.

Plum sagði frá því í viðtali að hún telur að það hafi hjálpað henni mikið að fá að spila á móti strákum.

„Það hjálpaði mér mikið að spila á móti strákum þegar ég var að alast upp. Stærð þeirra, hraði þeirra og líkamlegi þátturinn hjálpaði mér að verða betri,“ sagði Kelsey Plum.

Faðir hennar var líka harður við hana og lét hana finna fyrir því ef hún tapaði leikjum.

„Ég spilaði oft á móti pabba mínum. Hann lét mig labba heim ef við töpuðum. Allt í góðu og hjálpaði til að byggja upp karakter,“ sagði Plum sem ber enga kala til föðurs síns vegna þessa.

Enn í dag er hún að mæta strákum en þeir spila við leikmenn Las Vegas Aces á æfingum.

„Við spilum líka á móti strákum á æfingum. Þeir eru reyndar mjög fyndnir og halda að þeir komist á samning í G-deildinni ef þeir ná að verja skot frá okkur. Þeir taka það mjög alvarlega að spila á móti okkur,“ sagði Plum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×