Að sögn Ásmundar Rúnars Gylfasonar, stöðvarstjóra lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu, er ekki talin þörf á að rannsaka málið frekar og það teljist að fullu upplýst.
Hann segir að rannsókn málsins bendi til þess að aðeins einn hafi verið að verki og málið sé nú í hefðbundnu ferli. Hann hafi ekki á takteinunum hver hugsanleg viðurlög eru við athæfinu, en ljóst sé að ekkert varanlegt tjón hafi hlotist af því.
„Þetta hefur verið heljarinnar verk,“ segir Ásmundur Rúnar í samtali við Vísi.
Borgarstarfsmenn fljótir að þrífa stéttina
Líkt og Vísir greindi frá í gærmorgun hafði einhver spreyjað skilaboðin „VOPNAHLÉ!!! STRAX!!!“ á stéttina fyrir framan Alþingihúsið fyrr um morguninn.

Um klukkan 10 voru menn á vegum borgarinnar mættir á vettvang með búnað til þess að afmá skilaboðin. Sú vinna tók stuttan tíma og stéttin er nú laus við öll skilaboð.