Í maí á þessu ári var sagt að Sun Jon-ho væri í haldi ríkistjórnarinnar en það var þó ekki ljóst hvað hann hafði gert af sér. Fréttastofan AP sagði fyrr á árinu að leikmaðurinn væri grunaður um að hagræða úrslitum ásamt þjálfara Shandong Taishan, Hao Wei.
Nýjustu fréttir segja að Sun Jon-ho hafi þegið mútur frá andstæðingum ríkistjórnar Kínar. Hvar, hvernig eða fyrir hvað hefur þó ekki komið fram.
Hinn 31 árs gamli miðjumaður hafði spilað í Kína síðan 2021 þegar hann samdi við Shandong Taishan en fram að því spilaði hann í heimalandinu. Hann á að baki 20 A-landsleiki, þar af þrjá á HM í Katar á síðasta ári.
Engar sannanir
„Ég á mér eina ósk, það er að Kínverjar leysi Son úr haldi fyrir jól,“ sagði Klinsmann eftir 3-0 sigur Suður-Kóreu á Kína í undankeppni HM á dögunum.
„Þeir hafa ekki sýnt fram á að hann hafi gert neitt rangt. Við vonum að ríkisstjórn Kína leysi hann úr haldi fyrir jól svo hann geti séð fjölskyldu sína,“ bætti Klinsmann við.
Í samtali við fréttaveituna AFP þá staðfesti Knattspyrnusamband Suður-Kóreu að það hefði sent fólk til Kína til að leysa Son úr haldi en lögfræðingur leikmannsins var ekki viljugur að ræða við sendinefndina.
Mao Ning, talsmaður utanríkisráðuneytis Kína, sagði einfaldlega að í Kína væri farið eftir lögum. Það er því enn óvitað hvort Son fái að snúa aftur til Suður-Kóreu eða hvar hann er í haldi kínverskra yfirvalda.