Fótbolti

AC Milan máttu síns lítils gegn Monza

Siggeir Ævarsson skrifar
Oliver Giroud skoraði í kvöld
Oliver Giroud skoraði í kvöld EPA-EFE/MATTEO BAZZI

AC Milan gerði ekki góða ferð til nágranna sinna í Monza í kvöld en heimamenn fóru með 4-2 sigur af hólmi þar sem framherjinn Luka Jovic sá rautt.

Monza komst í 2-0 í fyrri hálfleik og virtust gestirnir frá Mílanó vera heillum horfnir. Ekki skánaði staða þeirra á 52. mínútu þegar Luka Jovic fékk beint rautt spjald fyrir að slá til varnarmanns.

Þetta atvikt virtist þó mögulega blása gestunum einhvern eldmóð í brjóst og á 62. mínútu minnkaði Oliver Giroud muninn og Christian Pulišić jafnaði metin skömmu áður en venjulegur leiktími rann út, á 88. mínútu.

Þarna vonuðust Mílanó-menn kannski eftir því að vera búnir að bjarga andlitinu úr vondri stöðu en skömmu síðar kom Warren Bondo Monza yfir á ný. Það var leikmaður AC Milan sem lagði upp markið, Daniel Maldini, en hann er á láni frá AC Milan og þetta var aðeins hans annar leikur fyrir Monza.

Lorenzo Colombo setti svo síðasta naglann í kistu gestanna undir lok uppbótartímans. AC Milan misstu þarna af gullnu tækifæri til að setjast í 2. sæti Seríu A en liðið er tveimur stigum á eftir Juventus sem gerði 2-2 jafntefli við Verona fyrr í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×