Báðir hafa þessir fyrrverandi aðalmiðjumenn íslenska landsliðsins til margra ára glímt við meiðsli í vetur og í raun ótrúlegt ef þeir ættu eftir að eiga einhvern þátt í að koma Íslandi aftur á EM.

Meiðsli Arons virðast snúnari og hann lýsti þeim á Instagram sem þeim „erfiðustu á ferlinum“. Enda hefur Aron ekki spilað fyrir félagslið síðan í maí á síðasta ári, og er ekki einu sinni skráður í leikmannahóp Al Arabi.
Aron segist þó nálgast það að snúa aftur út á völlinn en Hareide segir ljóst að Jóhann Berg Guðmundsson verði fyrirliði Íslands gegn Ísrael, í stað Arons.
Gylfi hefur sinnt endurhæfingu á Spáni, eftir að hafa fengið samningi sínum við Lyngby rift. Fjórir mánuðir eru síðan hann spilaði síðast fótboltaleik en Gylfi hefur sagt endurhæfinguna ganga vel.
„Hvorugur þessara leikmanna hefur verið að spila. Það væri því miklum vandkvæðum háð að velja þá. Menn verða að spila. Þeir hafa verið í meðferð við meiðslum. Ég held að Gylfi sé nær því að ná fullum bata en hann hefur ekkert spilað og það er aðalatriðið,“ segir Hareide í viðtali við Vísi.
Hareide hefur reynt að koma Aroni og Gylfa aftur inn í landsliðið og valdi Aron, sem landsliðsfyrirliða, í leiki í október og nóvember þrátt fyrir að hann væri ekkert að spila fyrir sitt félagslið. Gylfi spilaði sömuleiðis landsleiki í október eftir að hafa rétt spilað tvo leiki, eftir rúmlega tveggja ára hlé frá fótbolta.
Helsta óvissan um Aron, Gylfa og Valgeir
Að þessu sinni reiknar Hareide hins vegar ekki með að velja Aron og Gylfa, þegar hann tilkynnir hópinn sinn 15. mars, nema að þeir verði byrjaðir að spila fótbolta: „Nei, það held ég ekki.“
Fyrir utan Aron og Gylfa er meiðslastaðan á leikmönnum Íslands góð, þó að margir mættu vera að spila meira með sínu félagsliði. Bakvörðurinn Valgeir Lunddal Friðriksson hefur þó átt við meiðsli að stríða.
„Aron og Gylfi eru þeir helstu sem óvissa ríkir um og ég mun tala við þá þegar nær dregur vali á hópnum. Það eru í raun ekki önnur meiðsli og vonandi heldur þetta svona áfram. Valgeir hefur reyndar glímt við meiðsli en síðast þegar ég vissi átti hann að hefja æfingar í þessari viku. En hann hefur ekkert spilað svo það ríkir auðvitað óvissa um hann,“ segir Hareide.
Hann hyggst velja 23 leikmenn fyrir uppgjörið við Ísrael, sem fram fer í Búdapest 21. mars, en bæta við aukamanni eftir síðustu leikjahelgina fyrir leikinn, til að bregðast við mögulegum skakkaföllum. Vonin er sú að Ísland vinni Ísrael og mæti Bosníu eða Úkraínu í úrslitaleik um sæti á EM í Þýskalandi, 26. mars.