Greint var frá ákvörðun Williams Cole Campbell fyrir rúmri viku síðan, en hann er í dag leikmaður nítján ára liðs Borussia Dortmund í Þýskalandi.
Faðir hans er Bandaríkjamaður en móðir hans er Rakel Björk Ögmundsdóttir sem skoraði sjö mörk í aðeins tíu landsleikjum fyrir Ísland í upphafi aldarinnar. Cole gat því spilað fyrir báðar þjóðirnar.
Cole æfði hjá unglingaakademíu Atlanta United í Bandaríkjunum en kom ungur til FH. Hann lék sinn fyrsta leik með Hafnarfjarðarliðinu aðeins fimmtán ára gamall, en lék þó aðeins þrjá leiki í efstu deild á Íslandi, þar af einn með Breiðabliki. Þá á Cole að baki sjö leiki fyrir sautján ára landslið Íslands þar sem hann hefur skorað tvö mörk.
Hann hefur hins vegar valið að spila frekar fyrir bandaríska landsliðið en það íslenska og virðist sem Aron Jóhannsson, sem tók samskonar ákvörðun á sínum tíma hafi haft mikil áhrif á ákvörðun hins unga Cole.
Tom Bogert, sem fjallar um bandarísku MLS-deildina og bandaríska karlalandsliðið hjá The Athletic, greinir frá því á samfélagsmiðlinum X að Cole hafi fengið ráðleggingar frá Aroni er þeir léku gegn hvorum öðrum.
„Ég spilaði á móti Aroni Jóhannssyni. Hann dró mig afsíðis og sagði að ég yrði að íhuga að spila fyrir Bandaríkin. Hann sagði að það hafi verið ákvörðun sem hann myndi taka aftur,“ segir í færslu Bogert.
Borussia Dortmund rising talent Cole Campbell (18) on switching to represent the United States from Iceland:
— Tom Bogert (@tombogert) March 15, 2024
“I played against Aron Johansson. He pulled me aside & said that I MUST consider playing for the USA. He said it was a decision he would do all over again.” pic.twitter.com/8ObjTBtS9Z