Stefán Teitur, sem er leikmaður danska úrvalsdeildarliðsins Silkeborg, verður því 25. maðurinn í íslenska hópnum.
Hareide var búinn að greina frá því á blaðamannafundi síðasta föstudag að Stefán Teitur væri til taks ef kalla þyrfti til miðjumann. Frá þessu sagði Hareide í tengslum við spurningar um fjarveru Gylfa Þórs Sigurðssonar, þegar hann svaraði því neitandi hvort möguleiki væri á að Gylfi yrði kallaður til á milli leikja.
Arnórarnir meiddust
Sem stendur hefur enginn verið sendur heim úr íslenska hópnum en fyrirliðinn Jóhann Berg Guðmundsson var ekki með í sigrinum frækna gegn Ísrael í gærkvöld, vegna meiðsla.
Arnórarnir tveir, Arnór Ingvi Traustason og Arnór Sigurðsson, fóru auk þess meiddir af velli í leiknum í gær.
Arnór Sigurðsson meiddist í ökkla við skelfilega tæklingu þegar Roy Revivo fékk rautt spjald í seinni hálfleik. Hann sagði við Fótbolta.net í gærkvöld að ökklinn liti ekkert allt of vel út en að vonandi væru meiðslin minni en menn héldu. Arnór Ingvi kenndi sér meins aftan í læri en kvaðst vonast til þess að ekki væri um tognun að ræða.
Stefán Teitur, sem er 25 ára, er fjórði Skagamaðurinn í íslenska hópnum. Spili hann á þriðjudaginn yrði það hans tuttugasti A-landsleikur.

Leikur Úkraínu og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport þriðjudaginn 26. mars. Leikurinn hefst klukkan 19.45 en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.10.