Í tilkynningu frá Kauphöll segir að Oculis sé alþjóðlegt líftæknifyrirtæki sem hafi það að markmiði að þróa augnlyf sem bæta sjón og draga úr einkennum alvarlegra augnsjúkdóma. Oculis tilheyri heilbrigðisgeiranum og sé fjórða félagið sem tekið er til viðskipta á mörkuðum Nasdaq Nordic og Baltic í ár.
Í þróun hjá Oculis séu ný augnlyf sem geti haft byltingarkennd áhrif. Þar á meðal sé OCS-01, augndropar byggðir á Optireach® tækni félagsins. Klínískar rannsóknir á OCS-01 hafi meðal annars sýnt verulegan árangur í meðferð á sjónhimnubjúg vegna sykursýki. Þá sé félagið með lyfið OCS-02 í klíniskum prófunum en það séu augndropar sem innihalda TNF-hamlara líttæknilyf, sem verki gegn augnþurrki og bólgum í yfirborði augans.
Loks megi nefna lyfið OCS-05, sem bundnar séu vonir við að geti hjálpað til við meðhöndlun á hrörnun eða rýrnun taugavefs í auga sem tengist sjúkdómum eins og sjóntaugarbólgu. Markmið Oculis sé að bæta heilsu og lífsgæði sjúklinga um allan heim með því að þróa lyf sem bæta sjón og augnheilsu.
Forstjórarnir hæstánægðir með skráninguna
„Við erum mjög ánægð með að Oculis, sem á rætur sínar að rekja til íslensks hugvits sé núna tvískráð á Íslandi og í Bandaríkjunum. Við erum afar þakklát fyrir þann mikla áhuga sem fjárfestar hafa sýnt félaginu en skráningin hér styður vel við framtíðaráform okkar um að bæta meðferð alvarlegra augnsjúkdóma. Við bjóðum nýja hluthafa velkomna og hlökkum til að vinna með þeim fram veginn,“ er haft eftir Riad Sherif, forstjóra Oculis.
„Við bjóðum Oculis velkomið á Aðalmarkað Nasdaq Iceland Iceland. Það er mjög ánægjulegt að félagið hafi valið tvískráningu á íslenska markaðinn, sem gefur íslenskum fjárfestum tækifæri til að taka þátt í vegferðinni þeirra. Við óskum öllum hjá Oculis og hluthöfum þess góðs gengis og hlökkum til styðja við félagið með auknum sýnileika á íslenska markaðnum,“ er haft eftir Magnúsi Harðarsyni, forstjóra Nasdaq á Íslandi.