Kane fékk tæknivillu fyrir leikaraskap í seinni hálfleik og var sendur í sturtu. Fyrr í leiknum hafði hann fengið óíþróttamannslega villu. Kane var langt frá því að vera sáttur og það tók sinn tíma að koma honum af velli. Grindavík vann leikinn, 102-94, og komst þar með í 1-0 í einvíginu.
Kane hefur verið mikið milli tannanna á fólki undanfarnar vikur en hann missti af einum leik í einvíginu gegn Tindastóli vegna leikbanns.
Að mati Teits Örlygssonar gerðu dómararnir rétt þegar þeir gáfu Kane tæknivilluna fyrir leikaraskapinn. Hann vill þó ekki sjá Grindvíkinginn fara í leikbann.
„Það er búið að dæma þetta í allan vetur. Ég sá bara svona í síðasta leik, þessar floppvillur. Mér finnst allt í lagi að það sé tekið á þessu af því við vorum farin að sjá ansi marga dómara þar sem menn voru að plata dómarana með einhverju leiðinafloppi. En að fara í leikbann út af því finnst mér algjörlega fáránlegt,“ sagði Teitur en Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, sagðist í viðtali eftir leikinn búast við því að Kane færi í leikbann.
„Þarna þarf dómarinn væntanlega að meta hversu mikill leikaraskapur þetta er, sem þetta er, því venjulega fá leikmenn aðvörun ef þetta er smá á jaðrinum og svo fá þeir tæknivillu ef þeir gera það aftur,“ sagði Matthías Orri Sigurðarson.
Strákarnir ræddu svo um hegðun Kanes eftir að hann var rekinn úr húsi og Stefán Árni Pálsson benti á að Jón Bender, eftirlitsdómari leiksins, hefði verið með nefið ofan í því.
„Jón stendur yfir þessu þegar hann slær í myndavélina og hann hefði getað meitt hann. Svo heldur hann áfram og hreytir einhverju í Pétur [Ingvarsson, þjálfara Keflavíkur] og slær í eitthvað grindverk. Jón Bender stóð bara yfir þessu allan tímann en ég hef ekki hugmynd um hvort þeir ætli að gera eitthvað í þessu eða ekki,“ sagði Teitur.
„Við vitum ekki nákvæmlega núna hvort þetta núllast út, þetta leikbann sem hann tók út á sínum tíma. Ef svo er, þá er ansi erfitt fyrir Grindvíkinga að hann hagi sér svona og fái mögulega leikbann út af þessu, frekar en einhverju öðru,“ sagði Matthías.
Teitur furðaði sig svo á að enginn Grindvíkingur hefði stöðvað Kane þegar hann kvartaði í dómurum leiksins eftir að búið var að vísa honum af velli.
Kane skoraði 24 stig á þeim 26 mínútum sem hann spilaði í leiknum í gær. Hann tók einnig sjö fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.
Næsti leikur Grindavíkur og Keflavíkur fer fram í Keflavík á laugardaginn.
Umræðuna um brottrekstur Kanes má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.