Íslendingar hafa átt afar góðu gengi að fagna á Norðurlandamótinu í Malmö. Í gær hrósaði Aníta Hinriksdóttir sigri í 1500 metra hlaupi og fyrr í dag varð Guðni Valur Guðnason hlutskarpastur í kringlukasti.
Þriðja gullið kom svo í hús þegar Daníel varð Norðurlandameistari í langstökki í dag.
Hann stökk 8,21 metra og bætti þar með þrjátíu ára gamalt Íslandsmet Jóns Arnars Magnússonar. Met hans var 8,00 en Daníel sló það í þriðju tilraun með stökki upp á 8,01 metra og í því fjórða bætti hann um betur og stökk 8,21 metra.
Hér fyrir neðan má sjá Daníel slá Íslandsmet Jóns Arnars í Malmö í dag en við þökkum Hermanni Þór og FRÍ kærlega fyrir upptökuna.
Stökk Daníels var það tólfta lengsta í heiminum á árinu og með því tryggði hann sér sæti á EM í Róm í júlí.
Þess má geta að lágmarkið fyrir Ólympíuleikana er 8,27 metrar.