Eftir afar farsælan feril sem leikmaður tók Pavel við Tindastóli í janúar á síðasta ári. Undir hans stjórn varð liðið Íslandsmeistari í fyrsta sinn síðasta vor.
Fyrir rúmum tveimur mánuðum fór Pavel í veikindaleyfi og nú er ljóst að hann snýr ekki aftur til starfa sem þjálfari Tindastóls.
Dagur Þór Baldvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls vildi ekki mikið tjá sig um tíðindi dagsins í samtali við Vísi. Hann sagði þó að ákvörðunin að slíta samstarfinu hafi gert gerð í góðu og allir aðilar væru sáttir.
„Við sjáum mikið á eftir Pavel. Hann er góður drengur og frábær körfuboltamaður,“ sagði Dagur um þjálfarann fyrrverandi.
Svavar Atli Birgisson stýrði Tindastóli út tímabilið en liðið tapaði fyrir Keflavík í bikarúrslitum og Grindavík í átta liða úrslitum Subway deildarinnar.
Aðspurður um leitina að næsta þjálfara sagði Dagur að hún stæði yfir.
„Það hlýtur að skýrast fljótlega. Það styttist í það með hverjum deginum,“ sagði Dagur um hvenær tíðinda mætti vænta af þjálfaramálum Tindastóls.